Skíðagengið

Skíðagengið

Á skíðum skemmti ég mér!

Verð frá
23900 kr.

Erfiðleikastig
Miðlungs

 • 1
 • 2
 • 3
 • 4
 • 5

Athugið
Spurningar? fyrirspurn@fjallaleidsogumenn - hafðu samband

Skíðagengið 

Skíðagengið er hugsað fyrir vant svigskíðafólk sem vill víkka sjóndeildarhringinn og komast út fyrir troðnar brautir skíðasvæðanna. Með fjallaskíðunum má sameina tvö áhugamál, fjallgöngur og skíði. Í Skíðagenginu verður áherslan meira skíðamegin. Tilgangurinn með ferðunum er að komast í góðar ósnortnar skíðabrekkur og góðan snjó þó vissulega sé æskilegt að uppgönguleiðin sé falleg og útsýni frá tindinum sé glæsilegt.

Umsjónarmenn Skíðagengisins eru Ólafur Þór Júlíusson og Jóhann Garðar Þorbjörnsson.

Dagskrá

Skíðagengið - Dagskrá 2018

Dagskráin getur tekið breytingum í vetur vegna veðurs og aðstæðna. Við áskiljum okkur rétt til að færa eða fella niður ferðir til þess að auka öryggi meðlima og leiðsögumanna. 


Febrúar


Snjóflóðanámskeið laugardaginn 3. febrúar

Snjóflóð eru tvímælalaust mesta ógn fjallaskíðafólks. Við byrjum því veturinn á því að fara yfir öryggisatriðin.

Byrjum daginn snemma með fyrirlestri áður en við hefjum verklegar æfingar.  Farið verður yfir félagabjörgun, leit og björgun og grunnatriðin við mat á snjóflóðahættu.  Nauðsynleg byrjun á vetrinum og svo endum við á stuttri skíðun.

Umsjón: Leifur Örn Svavarsson

Frítt fyrir meðlimi skíðagengisins!


Utanbrautaskíðun á Akureyri 16 -18. febrúar

Helgina 9 -11 febrúar stefnir skíðagengið í utanbrautarskíðun á Akureyri. Þessi ferð hefur verið fastur liður í dagskrá Skíðagengisins og tekist mjög vel. Akureyri bíður uppá mjög góða utanbrautarmöguleika sem við stefnum á að nýta okkur til hins ítrasta og ná eins mörgum hæðarmetrum í utanbrautarskíðun eins og hægt er.

Undanfarin ár hefur leynigestur verið með á laugardeginum og lágmarkskröfur til hans er þáttaka á tveimur Ólympíuleikum!

Innifalið í verði er umsjón og leiðsögn, 25.900 kr. Reynt verður eftir fremsta megni að sameinast í bíla, gista á sama stað og hafa góða "aprés-ski stemmingu” að loknum frábærum skíðadegi. Lágmarksfjöldi er 8 manns.

Ferðin er opin öllum sem eru eða hafa verið í Skíðagenginu.

Umsjón : Leifur Örn Svavarsson og Jóhann Garðar.


Dagsferð í nágrenni Reykjavíkur 24. febrúar.

Finnum besta veðrið og bestu brekkuna!


Mars


Skarðsheiðin 10. mars

Í fjallasal Skarðsheiðar er gnægð  brekkna til utanbrautarskíðunar. Við ætlum að finna bestu línuna þennan laugardaginn ☺

Umsjón: Jóhann Garðar. Lágmarksfjöldi 6 manns.


Skálafell-Hátindur 24. Mars

Skálafell er þekkt skíðasvæði en það eru ekki margir sem byrja á Skálafelli og enda á Hátind í Esju; það ætlum við að gera 24.mars.

Umsjón: Guðjón Örn. Lágmarksfjöldi 6 manns.


Apríl


Helgrindur 14. apríl.

Helgrindur bjóða upp á frábæra skíðun og útsýni yfir Breiðafjörð og Faxaflóa – á góðum degi sést allt frá Reykjanesi og yfir til Vestfjarða. Nú er bara að krossa fingur og sjá hvort veðurguðirnir standi ekki við sitt!

Umsjón: Jóhann Garðar. Lágmarksfjöldi 6 manns.


Tröllaskaginn 27.apríl til 1. maí.

Vorferðin á Tröllaskaga hefur síðustu ár verið meginferð Skíðagengisins og hafa ferðirnar verið gríðarlega vel heppnaðar.  Í ár verður ferðin með breyttu sniði því nú verður gengið á milli skála á Tröllaskaganum og vel valdar brekkur skíðaðar á leiðinni! 

Umsjón: Guðmundur Arnar og Jóhann Garðar

Verð 53.000 kr. Innifalið í verði er umsjón og leiðsögn. Lágmarksfjöldi 8 manns.


Maí


Dagsferð í nágrenni Reykjavíkur 5. maí

Finnum besta veðrið og bestu brekkuna!


Sveinstindur 11-12 maí (Til vara: 25-26. maí)

Ein magnaðasta fjallaskíðaleið landsins. Gengið upp Ærfjallsleið á Sveinstind annað hæsta fjall landsins (2044.m) í öskju Öræfajökuls þar bíður okkar 10 km löng skíðabrekka niður að Kvískerjum. Þessi ferð er 31km löng og alvarleg leið um jökla og hryggi. 

Hér má sjá flottar myndir úr slíkri ferð sem Guðmundur Arnar fór í  https://goo.gl/photos/MYdmwo5uBorvwyrWA

Umsjón: Guðmundur Arnar og Jóhann Garðar. Lágmarksfjöldi 8 manns.


Júní


Þriggja daga ferð á Látraströnd í byrjun júní

Ævintýraferð á Látraströnd. Siglt yfir Eyjafjörðinn og gist í Látraskála við sjóinn. Skíðað út frá skálanum upp á nálæga tinda sem bjóða upp á topp skíðun og frábært útsýni!

Umsjónarmaður: Guðjón Örn og Jóhann Garðar. 

Verð 53.000 kr. Innifalið í verði er umsjón og leiðsögn. Lágmarksfjöldi 8 manns. Lágmarksfjöldi er 8 manns.


Ferð

Flokkur

Snjóflóðakennsla 3. Febrúar

Flokkur 0 (frítt)

Utanbrautaskíðun á Akureyri 16-18 febrúar

Flokkur 3

Stutt ferð í nágrenni Reykjavíkur 24. febrúar

Flokkur 1

Skarðsheiði 10. mars

Flokkur 2

Skálafell-Hátindur 24.mars

Flokkur 2

Helgrindur 14. apríl

Flokkur 2

Tröllaskagi 27 apríl - 1 maí

Verð : 53.000

Stutt ferð í nágrenni Reykjavíkur 6. maí

Flokkur 1

Sveinstindur 10-12. Maí

Flokkur 3

Látraströnd í byrjun Júní.

Verð : 53.000


Ef aðstæður og veður leyfa munu leiðsögumenn auglýsa stutta kvöldtúra í nágrenni Reykjavíkur stuttum fyrirvara á síðu hópsins á netinu.

Umsjón þeirra ferða: Valdi, Guðmundur Arnar og Jóhann Garðar

Ef veturinn lætur sjá sig af krafti í byrjun vetrar er líklegt að við bætist stuttar skíðaferðir í janúar.

Nánar

Skíðagengið

- Fámennur sérhæfður hópur með úrvals fararstjórn.

Umsjónarmaður er Jóhann Garðar Þorbjörnsson.

Aðrir leiðsögumenn Skíðagengisins eru Leifur Örn Svavarsson, Ívar Finnbogason, Hallgrímur Magnússon, Guðmundur Arnar Ástvaldsson og Tómas Leifsson, sem munu koma að dagskrá skíðagengisins á einn eða annan hátt.

Lágmarksfjöldi í Skíðagenginu er 8 manns og hámark 30 manns.

Skráning og frekari upplýsingar sendist á fjallaleidsogumenn@fjallaleidsogumenn.is

Fræðsla

Þó að dagskrá Skíðagengisins byggist upp á ferðum verður engu að síður lögð áhersla á fræðslu um snjóflóð og örugga ferðamennsku. Í ferðunum verður endurtekið farið yfir á raunhæfan hátt hvernig snjóflóðahætta er metin, hvernig rétt ferðahegðun getur dregið úr áhættu tengdri skíðun utan brauta og rétt viðbrögð við óhöppum verða æfð.

Helstu námskeiðsþættir

 • Mat á snjóflóðahættu
 • Leiðarval með tilliti til snjóflóðahættu
 • Ferðahegðun
 • Félagabjörgun úr snjóflóði
 • Rétt notkun og viðhald á sérhæfðum útbúnaði

Nauðsynlegur útbúnaður þátttakenda Skíðagengisins

 • Skíði
 • Fjallaskíðabindingar
 • Fjallaskíðaskór
 • Skinn undir skíði
 • Skíðastafir með stillanlegri lengd
 • Skíðabroddar
 • Bakpoki, 30-45 lítrar, hentugur fyrir dagsferðir. ABS snjóflóðabúnaður og snjóflóðalungu (Avalung) eru æskilegur viðbótabúnaður sem oft er innbygður í skíðabakpoka (ekki skylda).
 • Almennur útivistarfatnaður, þar með talið stakkur með góðri hettu, utanyfirbuxur sem renndar eru niður með hliðunum, utanyfirvettlingar.
 • Skíðahjálmur og skíðagleraugu
 • Snjóflóðaýlir (grunnbúnaður en hægt að fá leigt)
 • Skófla (grunnbúnaður en hægt að fá leigt)
 • Snjóflóðastöng (grunnbúnaður en hægt að fá leigt)
 • Ísexi (hægt að fá leigt)
 • Mannbroddar undir skíðaskó (hægt að fá leigt)
 • Létt klifurbelti til þess að nota á Öræfajökli (hægt að fá leigt)

Fríðindapakki

Fyrir utan augljósan heilsufarslegan ávinning af reglulegum skíðaðaferðum standa þátttakendum í skíðagengi Fjallaleiðsögumanna margs konar fríðindi til boða:

 • Afsláttur á námskeiðum Fjallaleiðsögumanna 
 • Sértilboð á skíðagræjum
 • ,,preppkvöld´´hjá Gumma í Íslensku Ölpunum
 • Sérstök kynningar- og afsláttarkvöld
 • Aðgengi að dagskrá Fjallafólks og Fjallagengis
 • Jöklaganga í Skaftafelli eða á Sólheimajökli, boðsferð fyrir tvo
 • Ferðaávísun (15.000kr) sem gildir í allar lengri ferðir Fjallaleiðsögumanna (nema sérferðir og ferðir Hreyfihópa)
 • Ferð utan dagskrár á Hvannadalshnjúk og/eða á Hrútfjallstinda á sérkjörum (Verðflokkur 3)
 • Afsláttur af námskeiðum ÍFLM
 • Vikulegar æfingar (Þrekæfingar, fjallgöngur eða stutt kvöldskíðun)

Verð

Verð og greiðslukjör

Til þess að eiga möguleika á því að taka þátt í dagskrá Skíðagengisins þurfa þátttakendur að vera skráðir í Skíðagengið eða annað útivistargengi Fjallaleiðsögumanna. Skráningargjald fyrir veturinn er 23.900 kr. 

Með því að greiða skráningargjald fyrir Skíðagengið opnast möguleiki á því að ferðast og æfa með Fjallafólki á meðan áskriftin varir.  Þátttakendur geta tekið þátt í kvöldgöngum og æfingum en greitt er sérstaklega fyrir lengri ferðir Fjallagengis og Fjallafólks.

Þegar gengið hefur verið frá skráningu hér á síðunni ert þú komin í hóp Skíðagengis. Rétt er að benda á að ýmis stéttarfélög hafa niðurgreitt þátttökugjöld sem þessi. Sjá meðal annars reglur um Varasjóð VR.

 

Fjallaskíðaferðir

Greitt er séstaklega fyrir hverja ferð fyrir sig og er verðið mismunandi eftir lengd og erfiðleikastigi ferðarinnar. Alls eru ferðirnar 9 á vetrinum en greitt er við skráningu í hverja ferð fyrir sig. 

 • Fjall í flokki 1 = 6.900 kr.
 • Fjall í flokki 2 = 13.500 kr.
 • Fjall í flokki 3 = 25.900 kr.

(Sjá dagskrá fyrir fjölda ferða í hverjum flokki)

Innifalið

Aðild að dagskrá Skíðagengisins. Þrek- og styrktaræfingar og/eða kvöldgöngur á fjöll í nágrenni Reykjavíkur á þriðjudagskvöldum kl 18:00 (með Fjallafólki), þar sem við vinnum okkur í haginn fyrir næstu skíðaferð. Einnig er möguleiki á því að taka þátt í laugardagsgöngum Fjallafólks og Fjallagengis á sömu kjörum og meðlimir hópanna. Veglegur fríðindapakki fylgir aðild (nánar um það hér að ofan).

 

Ekki innifalið

Akstur, gisting og sérhæfður persónulegur útbúnaður s.s. skíðabúnaður, snjóflóðaýlir, skófla, snjóflóðastöng, broddar, belti, ísöxi og skófla.
Snjóflóðabúnað er hægt að leigja á sérkjörum hjá Fjallaleiðsögumönnum.

Akstur og samkeyrsla

Fjallaleiðsögumönnum er annt um náttúru landsins og umhverfi mannfólks. Þess vegna er mælst til þess að þátttakendur á okkar vegum sameinist í bíla eins og kostur er, enda sé það umhverfisvænna og kostnaðarminna fyrir þátttakendur.

Meginreglan er sú að farþegar skipta á milli sín eldsneytiskostnaði, en ef farþegi er einn skipta hann og bílstjóri eldsneytiskostnaði á milli sín.

Aksturskostnaður er reiknaður fyrir sérhverja ferð út frá áætlun um fjölda kílómetra, verð á lítra eldsneytis og hvernig akstursleiðin er.

Farþegar sjá svo sjálfir að greiða sinn hlut í ferðinni eða semja við bílstjóra um að ganga frá því strax að ferð lokinni.

Samskipti og undirbúningur:

Tölvupóstur með upplýsingum um fyrirhugaða dagskrárliði er sendur á þátttakendur Skíðagengisins fyrir sérhvern viðburð. Auk þess er Skíðagengið með hópsíðu á Facebook.

Myndband

Bóka ferð

Því miður eru engar bókanlegar brottfarir í boði sem stendur. Vinsamlegast hafið samband til að fá frekari upplýsingar.

Currency Settings

Choose your currency

Please note that our currency exchange rate is taken from the Icelandic Central Bank and might differ slightly from your bank's currency rate. Additionally, all charges are made in Icelandic Krona (ISK).

Select currency:

Iceland Rovers - Search

Looking for something special?

Skráðu þig á póstlista Íslenskra Fjallaleiðsögumanna!

* verður að vera útfyllt

Hafa samband