Eyjafjallajökull
Hæfilega krefjandi en tæknilega auðveld fjallganga með stórkostlegu útsýni
Erfiðleikastig
Miðlungs, Krefjandi
- 1
- 2
- 3
- 4
- 5
Ferðaflokkur
Fjallganga
Hvað er innifalið
Leiðsögn og allur nauðsynlegur jöklabúnaður
Þú útvegar
Hlýjan fatnað, næringu og drykkjarföng
Lengd ferðar
10 klst.
Upphafsstaður
Við Seljavelli
Hópastærð
Lágmark 3 og hámark 8 í línu
Athugið
Vinsamlegast verið mætt á Seljavelli tímanlega fyrir brottför klukkan 8:00.
Eyjafjallajökull er tilvalin dagsferð frá Reykjavík og hentar vel sem undirbúningur fyrir þá sem hyggjast klífa Hvannadalshnúk síðar. Gengið er frá Seljavöllum upp Lambafellsheiði og beina leið upp á Hámund, sem gnæfir yfir ísfyllta öskjuna á þessu mikilfenglega eldfjalli. Í góðu veðri er stórkostlegt útsýni yfir Mýrdalsjökul, Tindfjallajökul, Laugaveginn norður í Torfajökulssvæðinu, að ógleymdri suðurströndinni og Vestmannaeyjum.
Leiðin er nokkuð jafnbrött, um með samtals hækkun upp á tæpa 1600 metra og vegalengdin aðra leið um 8 km. Gangan upp á topp tekur 5-7 tíma og niðurferðin 2-3 klukkustundir. Dagurinn krefst því þokkalegs líkamlegs ásigkomulags en ekki er þörf á neinni tæknilegri kunnáttu. Þegar komið er inn fyrir jökulbrúnina verður gengið í línu og á broddum og munu leiðsögumenn fara vel yfir það þegar að því kemur.
Athugið að lágmarksfjöldi í brottför er 3. Vinsamlegast hafið samband við [email protected] til að bóka sérferðir.
Lágmarks aldur: 16
Búnaðarlisti
Skyldubúnaður
- Bakpoki 30-45L
- Vatns og vindheldur öndunarfatnaður, buxur og jakki
- Sterkir gönguskór
- Legghlífar
- Síðerma bolur úr ull eða gerviefnum
- Göngubuxur
- Ullarsokkar / göngusokkar
- Góð sólgleraugu cat. 3-4
- Sólarvörn / fyrir andlit og varir (SPF 30 eða meira)
- Hlý peysa (ull eða fleece)
- Auka peysa til að nota í pásum og á köldum dögum (eða léttur dún / fiber jakki)
- Húfa og vettlingar (þunna og þykka)
- Nesti (samlokur, súkkulaði og annað nasl)
- Vatn (allt að 2L, leitið ráða hjá leiðsögumanni fyrir ferð)
- Myndavél
- Göngustafi (stillanlega skíðastafi)
Snemma á vorin (apríl, maí) er nauðsynlegt að vera með hlýrri föt og ekki úr vegi að hafa einnig skíðagleraugu og vindeldar lúffur/vettlinga með í för.
Frekari upplýsingar:
Fatnaður:
Besta leiðin til að vera vel undirbúinn fyrir langar fjallgöngur er að klæða sig í lögum. Þannig er hægt að fara úr í miklum hita eða auka við fatnað eftir því sem ofar dregur og kólnar.
Það er mjög mikilvægt að klæðast fatnaði næst húðinni sem ekki dregur í sig raka. Ull og ýmis gervi efni eru mjög góð. Bómull er alger bannvara á fjöllum! Útivistarverslanir hafa mikið framboð af góðum innanundirfatnaði og geta gefið góð ráð um val á honum. Þunnir langerma bolir gefa besta vörn á sólar dögum!
Matur og drykkur:
Á meðan á fjallgöngunni stendur er stoppað nokkrum sinnum í lengri og skemmri tíma til að nærast og drekka. Mjög gott er að hafa nesti sem samanstendur af sælgæti, t.d. súkkulaði, sem borða má í stuttum pásum og samlokum sem gefa langtíma orku og borða má í lengri hléum.
Það er sjaldgæft að göngumenn nái ekki toppnum vegna þreytu. Þegar slíkt kemur fyrir er það venjulega vegna vöðvakrampa. Vöðvakrampar verða til vegna samblands áreynslu, vökva- og steinefnaskorts. Besta leiðin til að koma í veg fyrir krampa er að drekka mikið af vökva.
Hægt er að blanda ýmiskonar orkudrykkjum út í vatn til að bæta upp steinefna- og orkuskort. Best er að velja orkudrykki sem hafa mikið af steinefnum en ekki eingöngu kolvetni. Styrkur blöndunnar ætti að vera um ½ af því sem framleiðandi mælir með. Vatnið ætti að bera þannig að hægt sé að ná í það á göngu og ekki þurfi alltaf að taka af sér bakpokann til að drekka.
Góður kolvetnaríkur morgunmatur hjálpar til [múslí, brauð, o.þ.h.] og ekki er verra að drekka mikið áður en lagt er af stað. Kaffidrykkju ætti þó að stilla í hóf þar sem hún leiðir til frekara vökvataps.
Drekka, drekka,og drekka svo meira!