Hvannadalshnúkur
Verð frá
54999 kr.
Erfiðleikastig
Erfið
- 1
- 2
- 3
- 4
- 5
Hvað er innifalið
Leiðsögn sérmenntaðs leiðsögumanns og allur nauðsynlegur búnaður til jöklaferða
Lengd ferðar
12-15 klst. ganga
Upphafsstaður
Skáli Íslenskra fjallaleiðsögumanna við þjónustumiðstöðina í Skaftafelli
Hópastærð
Lágmark tveir þátttakendur og hámark 6 í línu
Athugið
Frekari upplýsingar á [email protected]
Hvannadalshnúkur er hæsti tindur landsins og vinsæl áskorun fyrir þá sem eru komnir af stað í gönguferðum og fjallgöngum.
Af þessum ástæðum hefur ferð okkar á Hvanndalshnúk verið vinsælasta ferð Íslenskra Fjallaleiðsögumanna hjá Íslendingum frá því að fyrirtækið byrjaði að leiðsegja á Hnúkinn 1994.
Hvannadalshnúkur býður upp á einstakt útsýni í allar áttir. Sjá má yfir endalausar fannbreiður Vatnajökuls, svarta strandlengju Skeiðarársands, hrikalega Hrútsfjallstinda og bratta skriðjökla Öræfajökuls. Þetta samspil stórbrotinnar náttúru og gefandi útivistar dregur Íslendinga sem og erlenda ferðamenn að Hvannadalshnúki, hátindi Öræfajökuls, ár hvert.
Ganga á Hvannadalshnúk reynir á úthald og viljastyrk gesta okkar, en í fylgd reyndra jöklaleiðsögumanna er ekki þörf á neinni sérhæfðri kunnáttu. Í ferðum okkar á Hvannadalshnjúk miðum við við hámark 6 gesti á hvern jöklaleiðsögumann við bestu aðstæður. Þegar líða tekur á sumarið og sprungur opnast meira lækkum við hlutfallið eftir aðstæðum.
Undirbúningsfundur er haldin kl 16:00 daginn fyrir brottför í söluskrifstofu Íslenskra Fjallaleiðsögumanna í Skaftafelli.
Fyrir frekari upplýsingar sendið tölvupóst á [email protected]
Langar þig að prófa Hnúkinn á fjallaskíðum? Skoðaðu þá ferðina Hvannadalshnúkur á fjallaskíðum
Lágmarks aldur: 16 ára
Búnaðarlisti
Dagsferð á Öræfajökul
Hvannadalshnjúkur / Hrútafellstindar / Þverártindsegg
- Bakpoki 30-45L
- Vatns og vindheldur öndunarfatnaður, buxur og jakki
- Sterkir gönguskór
- Síðerma bolur úr ull eða gerviefnum
- Göngubuxur
- Ullarsokkar / göngusokkar
- Góð sólgleraugu cat. 3-4
- Sólarvörn / fyrir andlit og varir (SPF 30 eða meira)
- Hlý peysa (ull eða fleece)
- Auka peysa til að nota í pásum og á köldum dögum (eða léttur dún / fiber jakki
- Húfa og vettlingar (þunna og þykka)
- Nesti (samlokur, súkkulaði og annað nasl)
- Vatn (allt að 2L, leitið ráða hjá leiðsögumanni fyrir ferð)
- Göngustafi (stillanlega skíðastafi)
Snemma á vorin (apríl, maí) er nauðsynlegt að vera með hlýrri föt og ekki úr vegi að hafa einnig skíðagleraugu og vindeldar lúffur/vettlinga með í för.
Frekari upplýsingar:
Fatnaður:
Að fara á Hnúkinn tekur milli 10 og 15 tíma að jafnaði. Búast má við hitastigi á bilinu –10°C og upp í 20°C á hvaða árstíma sem er. Besta leiðin til að vera undirbúinn undir þennan mikla hitamun er að klæða sig í lögum. Þannig er hægt að fara úr í miklum hita eða auka við fatnað eftir því sem ofar dregur og kólnar.
Það er mjög mikilvægt að klæðast fatnaði næst húðinni sem ekki dregur í sig raka. Ull og ýmis gervi efni eru mjög góð. Bómull er alger bannvara á fjöllum! Útivistarverslanir hafa mikið framboð af góðum innanundirfatnaði og geta gefið góð ráð um val á honum. Þunnir langerma bolir gefa besta vörn á sólar dögum!
Matur og drykkur:
Á meðan á fjallgöngunni stendur er stoppað nokkrum sinnum í lengri og skemmri tíma til að nærast og drekka. Mjög gott er að hafa nesti sem samanstendur af sælgæti, t.d. súkkulaði, sem borða má í stuttum pásum og samlokum sem gefa langtíma orku og borða má í lengri hléum.
Það er sjaldgæft að göngumenn nái ekki toppnum vegna þreytu. Þegar slíkt kemur fyrir er það venjulega vegna vöðvakrampa. Vöðvakrampar verða til vegna samblands áreynslu, vökva- og steinefnaskorts. Besta leiðin til að koma í veg fyrir krampa er að drekka mikið af vökva.
Hægt er að blanda ýmiskonar orkudrykkjum út í vatn til að bæta upp steinefna- og orkuskort. Best er að velja orkudrykki sem hafa mikið af steinefnum en ekki eingöngu kolvetni. Styrkur blöndunnar ætti að vera um ½ af því sem framleiðandi mælir með. Vatnið ætti að bera þannig að hægt sé að ná í það á göngu og ekki þurfi alltaf að taka af sér bakpokann til að drekka.
Góður kolvetnaríkur morgunmatur hjálpar til [múslí, brauð, o.þ.h.] og ekki er verra að drekka mikið áður en lagt er af stað. Kaffidrykkju ætti þó að stilla í hóf þar sem hún leiðir til frekara vökvataps.
Drekka, drekka,og drekka svo meira!
Æfingar:
Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem leggja í göngu á Hvannadalshnjúk með ÍFLM ná toppnum. Þegar það gerist ekki er það oftast vegna veðurs. Engin ætti þó að vanmeta Hnjúkinn. Gangan er löng og dagurinn erfiður. Jafnvel fyrir fólk í mjög góðu formi!
Allir ættu því að æfa sig áður en lagt er á brattann. Esjan, Móskarðshnúkar, Vífilfell, Skarðsheiði og Akrafjall eru nokkur dæmi um fjöll sem eru aðgengileg og skemmtileg til að byggja upp þol.
Kær kveðja og góða ferð,
Starfsfólk Íslenskra fjallaleiðsögumanna